Færsluflokkur: Bloggar

Algjört bull.

Þessi pistill kom í Mosfellingi í Ágúst 2009.

untitled84

Orðið algjört bull..........

 

Mér finnst alltaf gaman af sakamála og löggu þáttum sem fjalla um rannsóknir á glæpum, þennan galla verð ég víst að lifa með. Það vantar nú ekki úrvalið um þessar mundir en mér þykir nú vera aðeins of mikið af því góða. Sá frægasti þáttur undanfarin ár er CSI. Það er farið að angra mig hversu fáránleg málin eru orðinn, og hversu þráðurinn er orðinn þunnur. Söguhetjurnar þ.e.a.s. tæknideildin er nánast í bikini og stuttbuxum að rannsaka blóðpolla, með haglabyssuna í annarri hendi og gemsann í hinni. Sökum hversu vinsæll þessi þáttur er hafa aðrir fylgt á eftir og sumir voru á undan. Bones þar sem vísindagellan vinsæla hefur svör við öllum glæpum. Numbers þar sem stærðfræðingurinn ógurlegi leysir öll mál fyrir bróður sinn í FBI og hefur ekkert fyrir því. NCIS fjallar um sérsveit lögreglumanna sem rannsaka glæpi og morð í hernum og þar er að sjálfsögðu einhver drepinn á hverri vakt. Crossing Jordan minnir mig að einn þáttur hafi heitið þar sem líkskoðarar og krufningarmenn sparka upp hurðum og skella glæponum í handjárn. Nú ætla ég að skrifa handrit fyrir Hollywood þar sem húsvörðurinn Nonni og ræstingar konan Sísí í skrifstofubyggingu lögreglunar í Alaska berjast gegn glæpum, þar munu þau rannsaka mál og leysa þrautir ásamt löggunni á stöðinni, einsog í hinum þáttunum. Það munu að sjálfsögðu einhverjir drepast á hverri vakt og það verður forvitnilegt að fylgjast með þeim eltast við glæpona í bílaeltingarleik þar sem ræstingar konan á ekki í neinum vandæðum með að ná þeim á Ferrari bifreið sinni. Húsvörðurinn er með svarta beltið í júdó og var Grænlandsmeistari í boxi og fer létt með að berja vöðvatröllin sem gera sig breiða......................Ég er nú bara að grínast en það kæmi mér ekki á óvart að næsti bull þátturinn yrði eitthvað á þessa leið.

 

 

 

Högni Snær


Partýið búið.

Þessi pistill er frá 11 Maí 2009 hann kom ekki svona í Mosfelling heldur var hann minkaður mikið, þetta er pistill í fullri lengd sem engin hefur lesið áður.

imagesCA9WV9HR

 

 

Partýið búið.

 

Ég veit að það er nóg komið skrifum um “ástandið” en ég á með að skrifa aftur um það. Maður er búin að lesa og heyra ansi margar líkingar um ástandið og um þá útrásarvíkinga sem komu okkur í það ástand sem við erum nú stödd í. Hver þjóðfélagsfræðingurinn, stjórnmálafræðingurinn, gamlir pólitíkusar og hvað nú sem allt þetta fólk kallast, hafa keppst um að lýsa þeirri klípu sem við nú erum í. Og undir hvaða kringumstæðum okkur var þangað komið. Fyrir mér er þetta einsog lítil dæmisaga, eða sorgarsaga sem mætti lýsa á þennan hátt.

Þetta er einsog ég væri að halda partý og búin að bjóða slatta af fólki og svo fer það að spyrjast út einsog gengur og gerist,

” Hey það er partý hjá Högna í kvöld? Ætlarðu ekki að mæta ”.

Svo byrjar húsið að fyllast og ég kannast ekki við helminginn að liðinu sem er mætt á svæðið, ég vildi gefa þessu aðeins séns og ákveð að bíða með að reka alla út. Liðið er á kvöldið, svaka stuð og síminn hringir ég verð að skreppa frá kannski í hálftíma eða mestalagi klukkutíma og hugsa með mér “er treystandi að skilja allt þetta fólk eftir meðan ég skrepp frá ?” Ég er aðeins í kominn í glas og dómgreindin kannski ekki upp á sitt besta þessa mínútuna þannig að ég hugsa “ skítt með þetta, þetta er allt fullorðið fólk og ætti nú að vera húsum hæft, enda eru þarna inn á milli gamlir félagar sem ég get treyst.” Í leigubílnum byrja ég að efast hvort þetta hafi nú verið skynsamleg ákvörðun en Bakkus slær á allar slíkar vangaveltur. En þegar ég kem aftur heim er húsið í rúst, gjörsamlega í rúst. Búið að klára bjórinn og helmingurinn er í teppinu, koníaks flaskan sem ég fékk í brúðargjöf og ætlaði að geyma þangað til að ég verð fertugur er tóm, búið að skjóta köttinn, æla í rúmmið, klósettið stíflað, fiskarnir í fiskabúrinu í barnaherberginu komnir í baðið já og sumir svamla í eldhúsvaskinum, nágrannarnir búnir að hringja á lögguna og einhver skildi eftir sig síður skemmtilegan minjagrip í heita pottinum. Og allir útrásarvíkingarnir sem komu óboðnir í partýið farnir á pöbbinn að halda áfram að skemmta sér og vilja ekki kannast við neitt þegar kemur að því að borga þrifinn.

 

 

Högni Snær


Enn og aftur...

Þessi pistill er frá 4 mars 2009.

images

Enn og aftur...

 

Já enn og aftur ætla ég að fjalla um það sem allir eru löngu orðnir þreyttir á að lesa um, þessa helvítis kreppu.

Vegna þessa að í hverri viku kemur eitthvað nýtt í ljós sem er einhverjum til skammar. Sumir sögðu af sér, aðrir létu setja lög til að draga sig út úr húsi og enn aðrir fóru í fýlu og koma ekki aftur í pólitík að eigin sögn.

Ég er orðin þreyttur að heyra í fjölmiðlum hvað við = almenningur gerðum allt svo arfavitlaust í góðærinu og hvað við hefðum átt að gera í betur staðin. Ef Páll Óskar þessi dúlla fer ekki að hætta að segja hvað við vorum vitlaus og heimsk í okkar kaupum, fjármögnunum og eyðslu þá fer ég persónulega og mölva þessum 9 ára Nokia síman hans. Ég verð alltaf súr og fúll þegar mér er bent á og mér velt upp úr eigin mistökum, ég þarf ekki stanslausar sjónvarps eða heilsíðu auglýsingar fréttablaðinu til að fatta það að við erum í djúpum skít.

 Range Rover jeppar eru táknmynd góðærisins og er það skiljanlegt, að borga á milli 8 og 18 milljónir fyrir einhverja breska bíldruslu sem er svo kannski ekki framleidd í Bretlandi heldur sett saman í Víetnam eða á álíka stað er heimskt. Svo er Palli alltaf að tala um þessa flatskjái sem virðast vera stór táknmynd í þessu góðæri líka, ég vil benda á að þegar ég keypti mér það drasl þá voru gömlu túpu sjónvörpin ekki til, það eru svo margir hættir að framleiða þau svona svipað og þegar vínilplöturnar hættu og tónlist kom bara út á geisladiskum og maður hafði ekkert val heldur varð maður að kaupa geislaspilara.

En ef ég spái meira út í þetta þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég sé þá bara sekur. Sekur góðærispési...... Ég er einn af þessum góðæris bruðlörum, ég keypti mér íbúð fyrir um það bil átta árum í stað þess að búa í foreldra húsum til fimmtugs. Þegar gamli Nokia síminn datt í vatnsfullan eldhúsvaskinn þá var ég bara svaka kall og keypti mér bara nýjan. Ég nenni ekki að labba eða taka strætó til Reykjavíkur í vinnu svo ég fjárfesti í bíl á bílalánum, og er enn að súpa seyðið af þeirri vitleysu og verð næstu 5-7 árin. Ég hafði stundum kjöt og kjúkling í matinn í stað þess að hafa hrökkbrauð og vatn á boðstólnum já eða núðlusúpu til hátíðarbrigða. Í helgar og sumarfríum þá hef ég nú ferðast út fyrir bæjarmörkin en hefði betur setið heima því svoleiðis bruðl á ekki að þekkjast á neinu skynsömu heimili.

Já ég get sjálfum mér um kennt einsog þú segir Palli minn og hefði átt að spara.

Því næst ætla ég að “Downloada” næstu plötuna þína af netinu heldur enn að borga fyrir hana í verslun, þau hún sé eflaust hverra krónu virði.

 

Högni Snær Góðærisbruðlaðri.     


Árið 2008.

Þessi pistill er 26. pistillinn sem ég skrifaði og kom hann í Mosfelling.

untitled

Árið 2008.

 

Árið 2008 verður sennilega minnst sem árið sem kreppan skall á okkur Íslendingum. En það gerðist nú fullt af skemmtilegum hlutum á því ári sem við getum verið stolt af og við skulum nú ekki einblína bara á það neikvæða þó svo að það fari nú helvíti hátt á listann Skandall áratugarins sem eflaust verður gefin út á næstu árum. Ísland náði silfri í handbolta á árinu á ólumpíuleikunum í Kína, en miðað við höfðatölu sem við Íslendingar viljum gjarnan vitna í þá unnum við mótið, og öll efstu þrjú sætin. Íslenska landsliðið í knattspyrnu kvenna náði líka frábærum árangri með því að komast á úrslitakeppni Evrópumótsins í Finnlandi og ef við vitnum í þessa höfða tölu þá erum við búinn að vinna það mót ekki satt?? Evróvision liðið sem við sendum út í ár náði góðum árangri og þau voru ekki send heim eftir general prufuna einsog undanfarin ár.

Afturelding karla fór upp um deild og stelpurnar okkar héldu sér í hópi meðal þeirra bestu. Margt skemmtilegt gerðist í menningar og skemmtanalífi á árinu þangað til að stóri skellurinn kom síðla vetrar 2008.

Bara ef banka kallarnir hefðu nú verið með þetta höfðatölu hugarfar þegar þeir stöðu í ströngu í útrásinni , við erum nú bara ca. 320 þúsund Íslendingar hér á þessu fallega skeri okkar. Hefði bara ekki nægt svona einsog eitt útibú í tveimur til þremur löndum, ein einkaþota skipt á milli nokkra fyrirtækja ein 800 milljóna íbúð í London og ein í New York? Hversu ríkir þurftu þeir að vera til að vera ánægðir með sinn hlut 100 milljarðar ? Nei kaupa meira græða meira eitt úrvaldsdeildar lið í enska boltanum, þakíbúðir í London Ferrari bílar sem kosta 300 milljónir svo ef það springur á honum þá bara kaupa nýjan. Lúxussnekkju með þyrlupalli sem þú notar tvisvar á ári á Bahama, Eyjur í Breiðarfyrði sem þeir finna ekki einu sinni á korti hvað þá heimsækja. Svo að sjálfsögðu þyrlu til að komast í lax eða í bústaðinn enda er Lamborgini lélegur á malarvegunum. Ef þú hefur ekki tíma fyrir börnin þá er bara að kaupa Einbýlishús í Skerjafirðinum og sportbíl í bílskúrinn hand þeim til að friða samviskuna. En nú er öldin önnur sumir flúnir land og skilja eftir sig sviðna jörð, en öðrum nægir einfaldlega að eiga fyrir matarinnkaupum í bónus og fyrir íbúðarláninu sem var þó ekki tekið í erlendu minntkörfuláni en er búið að hækka svo svakalega að manni svíður í bossann.

 

 

Högni Snær   


Kreppan.

Þessi pistill er úr Mosfellingi sem kom út í Sept. 2008 en ekki hvað.

imagesCANU84KF

Kreppan?

 

Jæja þá er hún komin blessunin, sú sem menn eru búnir að hóta í marga mánuði að kæmi, og hún kom með látum, þó að við höfum verið vöruð við henni þá var okkur alveg sama. Hún skall á einsog kraftmikil þynnka eftir gott sveitaball í Hlégarði, og það dugar ekkert alkaseltzer við kreppunni, bara bíða, spara og sitja helvítið af sér.

En nú þurfa sumir að breyta lífsháttum sínum, þyrlu pallarnir í 700 fermetra sumarhúsunum á Þingvöllum verður breytt í kartöflugarða. Uppstoppaði ísbjörninn sem búið var að panta verður að bíða eftir næsta góðæri. Panda steikin sem átti að verða í matinn á sunnudaginn verður að bíða fram á jól og lóga verður tígrisdýrinu þar sem það er orðið svo dýrt í rekstri, enda étur þetta kvikindi 15 kíló af nautalundum á dag.

Þeir verða að skipta út einkaþotunum fyrir ömurlegt fyrsta farrými hjá Flugleiðum og Range Roverinn skipt út fyrir strætó kort. Ég get nú samt ekki verið sammála síðasta pistla höfundi honum Þrándi vinum mínum sem sagði að þetta væri bara allt saman gott og blessað enda er hann ekki að ala upp tvö börn og borga af húsi, bíl, fasteigna gjöld, síma, sjónvarpi, tryggingum og þar fram eftir götunum. Þetta er kannski gott og blessað hjá hótel mömmu en margir verða eftir í djúpum skít.

Ég er t.d. með drusluna mína í glæsilegu myntkörfuláni sem þótti fín hugmynd á sínum tíma en það er einsog djöfullinn sjálfur hefði gripið í taumana um leið og kallinn var búinn að skrifa undir og enn sést ekki fyrir endann á því ævintýri. En hverjum er um að kenna!!!!Ofurmenntuðum hagfræðingum úr háskólanum!

Jakkaklæddum viðskiptafræðingum úr Bifröst!

Eða ríkisstjórninni!

Kannski.

Voru það hámenntaðir útrásar víkingarnir sem við háfum ekki haft undan við að dásama síðastliðinn 5 ár sem eru senda okkur með hraðpósti beina leið til helvítis. Ég ætla ekki að svara því enda breytir það ekki ástandinu að hálshöggva neinn núna við þurfum bara lausnir og það strax.

En einsog við Íslendingar segjum svo oft ÞETTA REDDAST.

 

Högni Snær


Gestrisni.

Þessi pistill birtist í Mosfellingi í september 2008.

untitled

Gestrisni.

 

Ég er að vinna í fiskbúð og þar kynnist ég mörgu skemmtilegu og lífsglöðu fólki, jú og einstakasinnum leiðinda pésum. Ég fæ oft fólk til mín sem biður mig um ráðleggingar um eldamennsku og undirbúning sem ég reyni að redda eftir bestu getu. Ein spurning kemur ansi oft fyrir og hana heyri ég mjög oft.

Áttu ekki eitthvað gott handa mér ég er að fá útlendinga í mat?

Og oft er þessi spurning lögð fram af slíkri ákveðni að allir sem eru í búðinni heyri og helst krakkarnir í sjoppunni við hliðina líka. Öll viljum við vera gestrisinn og draga fram okkar það besta þegar við fáum gesti í mat, og ég tala ekki nú um þegar til okkar koma útlendingar. Þá eru dregnar fram stórskota uppskriftir, dustað af hillunum, stéttin sópuð og sparistellið dregið fram til að mynda rétta stemmningu. Við viljum hafa það sem flottast fyrir gesti okkar og ég tala nú ekki um ef þeir eru ekki bornir og barnfæddir Íslendinar.

Ég hef hinsvegar aldrei verið spurður um“Áttu ekki eitthvað gott handa mér ég er að fá tengdamömmu í mat?” eða hvað þá “Áttu ekki eitthvað gott handa mér ég er að fá mömmu og pabba í mat?” Enda er nú bara hægt að bjóða upp á vatn og hrökkbrauð handa slíku hyski.

Ein ágæt frú bar upp þessa skemmtilegu spurningu í sumar og ég benti henni á flottan rétt sem væri frábær á grillið eða pönnuna enda viðraði vel til slíkrar iðju þann dag. Rétturinn sem ég mælti með var marineraður skötuselur í hvítlauk, basil og rósmarinn, hún var í miklum vafa um þetta val mitt og spurði ertu viss um að “Ameríkanar borði skötusel” ?Ég sagðist nú vera viss um það hafi sést til þeirra einu sinni eða tvisvar að leggja sé slíkan herramansmat sér til munns enda eru þeir eflaust smekk menn upp til hópa. Hún lagði leið sína til mín nokkrum dögum seinna og skilaði til mín þakklæti og hrósi enda vel tókst til, og kanarnir hressir með matinn því sagði hún þeim að þetta væri bara “white fish” og allar tegundir í sjónum þar ytra falla undir slíkan flokk sem ekki er lax,silungur eða túnfiskur. Næsti kúnni sem spyr mig “Áttu ekki eitthvað gott handa mér ég er að fá tengdó í mat? Fær feitan afslátt þó svo að spari stellið verði ekki reitt fram.


Verð könnun 2008.

Þessi pistill er frá Júní 2008.

images

Verð könnun 2008.

 

Í Febrúar og Mars á síðasta ári lækkaði virðisaukaskatturinn úr 24% eða 14% í 7%, þá gerði ég verðkönnun á nokkrum hlutum 11 Mars 2007 og stiklaði ég á stóru.

Það voru nokkrir sem fengu falleinkunn, og sunnudaginn 1 Júní 2008 fór ég aftur á stúfanna og kannaði hvað hefði breyst hvort þau hefðu hækkað eða lækkað.

Fyrst var ferð minni heitið í lúgusjoppuna og Hamborgaratilboðið þar hafði hækkað úr 770 í 840,

pylsutilboðið hafði hækkað úr 390 í 440.

Lúgusjoppan fær 2 mínusa í kladdann fyrir hækkun en einn plús fyrir viðráðanlega hækkun, en hækkun engu að síður og ekki virðist sem græðgi ráði för verðlagningu þar.

 

Draumakaffi var næsti staðurinn sem kvikindið heimsótti og pizza tilboðið þar var 16”m. 2áleggst. var 1690 en í dag er það hætt og eingöngu er hægt að panta 16”af matseðli. En 12”m. 2áleggst. var á 1390 og er í dag 1490 og er Gummi búinn að skella kók með í pakkann þannig að það má segja að það hafi lækkað allavega staðið í stað og fær Gummi og frú 3 plúsa fyrir ómakið en 1 mínus fyrir 16”, en þau hafa matseðil til að velja úr.

 

Snæland er ekki langt frá Draumakaffi og lagði ég því næst í þá langferð og kannaði verðið þar. Ostborgaratilboðið var á 770 og hafði það hækkað í 850.1/2 lítri af kók var á 150 eftir lækunn en er komið í 180, pylsan er á sama verði 220 krónur og fá þau 1 plús í kladdann fyrir það en 3 mínusa fyrir hækkunina sem er ekki mikil en síðast þá lækkuðu þau ekki matinn þegar virðisaukinn lækkaði.

 

Bónusvideo var næst á dagskránni og athugaði ég bara tvo vöruliði síðast það voru 1/2 af kók í plasti sem fór í 155 í lækkuninni og er komið upp í 170 í dag en pylsan var 188 en hefur verið tekinn af matseðlinum og ekki geta svangir ferðalangar gætt sér lengur á þessum þjóðarrétti okkar Íslendinga lengur í Bónusvideo. Fá þeir fyrir vikið 2 mínusa fyrir hækkunina og fyrir að drepa pylsuna en viðráðanleg hækkun engu að síður.

 

Þá var komið að leiðarenda á gamla Pizzabæ nú Hróa Hött þar voru verðinn á 16”m. 3álegst. á 1499 en nú 1974 og 12”m. 2álegst. á 1512. Ekki nóg með að þeir hafi vinninginn í hækkunum hér í bæ heldur hafa þeir minkað pizzuna úr 16 tommum í 15 og hækkað hana heldur hressilega, svo mætti yfirmennirnir skella matseðli á staðinn svona til að vera með fjörinu .Maður hefði haldið að þegar svona stór keðja kemur í sveitina sem er með sameiginleg innkaup á t.d. pizza kössum, áleggjum, sósum, pizza deigi og fleira ætti verðið að vera í lágmarki en hér virðist græðgi ráða ferðinni frekar en sanngjörn álagning. Þeir hafa þó ljósan punkt þarna í okrinu á Hróa þeir eru með mjög fín hádegistilboð frá 11:30 til 14:00 15”m. 2álegst. á 1299 og 12”m. 3álegst. á 1199 og það er eini plúsinn sem þeir þá en fjórir mínusar eru þeirra örlög og ættu menn kannski að leita annað í svæsnustu kreppunni sem gengur yfir um þessar mundir með skjálfandi jörð og tilheyrandi látum.

Það virðist vera eftir þessa einkunnargjöf að Draumakaffi sé hástökkvari ársins á meðan Hrói Höttur (gamli pizzabær) séu okrarar ársins í ár meðan aðrir rói á svipuðum slóðum. En batnandi “stöðum” er best að lifa.   

 

Lúgusjoppan:    NN  C

Draumakaffi:    N CCC

Snæland:     NNN C

Bónusvideo:     NN

Hrói Höttur:     NNNN C

 

Högni Snær. NNN


Landsliðsþjálfari Íslands ???

Þessi pistill er frá 6 Júní 2008 þegar enginn vildi taka við landsliðinu, og hann kom í Mosfellingi. www.mosfellingur.is

untitled

Landsliðsþjálfari Íslands.

 

Þegar þetta er skrifað er ný búið að ráða Guðmund Guðmundsson sem landliðsþjálfara Íslands, gott mál það og var ég nokkuð ánægur að hann hafi verið ráðinn.

Búið var að tala við Dag Sigurðsson sem ekki gat tekið að sér verkefnið þar sem hann sé í vinnu hjá Val!!! Því næst var talað við Geir Sveinsson sem eitt sinn þjálfaði Val fyrir mörgum árum með arfaslökum árangri ef ég mann rétt. Svo næst var talað við Aron Kristjánsson sem er búin að vera þjálfa erlendis og núna hjá Haukum með ágætis árangri. Mér finnast þessi þrír kandídatar vera slæm hugmynd hjá HSÍ og ber vott um reynslu leysi á þeim bænum... því var ekki haft samband við mig strax!

Ég var tilbúinn að taka djobbið að mér fyrir náttúrulega svakalega háa upphæð á mánuði og fríðindi sem myndu fá bankastjóranna til að væta sig af öfund. Mitt fyrsta verk væri að skamma stjórn HSÍ fyrir að detta sér í hug að ætla ráða svona andskotans pappakassa í þetta starf Geir Sveins og co. Aron er fínn hjá Haukum og dagur best geymdur í Austurríki þar sem hann þáði svo vinnu eftir allt saman. Svo myndi ég banna stjórnar mönnum HSÍ að mæta fullir í viðtöl, þar sem ég einn hefði rétt á því rífa kjaft, þvoglumæltur og ölóður við þróttafréttamenn þjóðarinnar. Ég jafnvel myndi heimta að hausar myndu fjúka. Æfinga prógrammið mitt væri einfalt, við myndum æfa VÖRN og við myndum æfa SÓKN. Ekki eyða dýrmætum tíma í að slasa okkar bestu menn í fótbolta eða körfubolta á æfingum, einsog hefur nú gerst. Í Íslenska landsliðinu eru heimsklassa menn sem spila heimsklassa bolta með sínum liðum, bara ekki fyrri Íslands hönd. Ég Myndi biðja hvern leikmann að setja niður á blað 5 bestu leikkerfin i vörn og sókn sem eru notuð hjá þeirra félagsliðum svo myndi ég velja 10 (5x16) bestu úr þeim hugmyndum og við myndum vinna með þau kerfi. Ég hefði sent einn eða tvo leikmenn heim úr hópnum sem spilaði síðast og brennt símanúmerin þeirra. Svo myndi ég skella á heraga í hópinn og hver og einn yrði að taka stíft í vörina og drekka 1 lítra af fjörmjólk á hverjum degi. Ég myndi að sjálfsögðu skella einum eða tveimur Aftureldingamönnum  í hópinn einsog sönnum Mosfellingi sæmir. Mjólkursamsalan og Geiri á Goldfinger yrðu aðal styrktaraðilar landsliðsins og ég myndi heimta að Skúli boxari og Mosfellingur yrði aðstoðarþjálfari enda enginn betri til að kenna mönnum að gefa “einn á lúðurinn” en hann.

Svo myndi ég hirða einn Evrópu eða heimsmeistara titill enda löngu tími til kominn eða vera bara meðal 10 efstu einsog þetta hefur verið undanfarinn ár.

Þegar Gummi Gumm klúðrar þessu þá slærðu bara á þráðinn Einar minn og ég verð ekki lengi að kippa þessu í liðinn.

 

Högni Snær.


Mottumars.

Þessi pistill er frá 2010 

Mottumars

Mottumars.

Núna í Mars er átakið karlmenn og krabbamein og liður í því átaki er þessi skemmtilega keppni mottumars sem hundruð karlmanna taka þátt í. Þetta átak hvetur karlmenn til að þekkja einkennin og hefur verið sett af stað skemmtileg auglýsingaherferð með stórskotaliði skemmtikrafta og þjóðþekktra karlmanna í fararbroddi. Í auglýsingarherferðinni eru menn hvattir til að safna mottu og safna áheitum á síðu krabbameinsfélagsins og þátttakan verið góð. Einnig eru menn hvattir til að þukla og þreifa allrækilega á sínu heilagasta og athuga hvort þar sé eitthvað misjafnt á seiði. Þetta er gríðarlega mikilvægt átak og þetta hefur verið “Tabú”  meðal karlmanna. En hingað til hefur nú ekki þurft auglýsingarherferð til að hvetja okkur karlmenn til að fitla við tepokana okkar og það svæði í kring, það fitl hefur verið í öðrum tilgangi en að athuga hvort krabbamein hefur gert vart við sig. Nú höfum við góða og gilda ástæðu eða afsökum ef að menn eru gripnir við slíkar iðjur og getum við afsakað okkur að þetta sé í læknisfræðilegum tilgangi og káf þetta sé liður í mottumars. Þar er virkilega gaman að sjá hve góð þátttaka Mosfellinga er góð og hægt er að skoða motturnar Mosfellsku á síðu krabbameinsfélagsins.

Það eru nokkrar konur sem taka þátt í þessu átaki en hvort það sé nú  frá náttúrunnar hendi eða að þær hafi tekið þessar auglýsingar of alvarlegar skal ég ekki segja.

Það væri nú svolítið skondið að vera hér túristi á vappi og skilja ekkert í af hverju í ósköpunum svona margir karlmenn á Íslandi líta út einsog þýskir klámmyndaleikarar frá átthunda áratuginum, því það verður að segjast þó að það fari mörgum mjög vel að vera með mottu þá lítum við hinir einsog að við séum sloppnir út af stofnun og göngum ekki heilir til skógar einsog sagt er.

Högni Snær.


Hrekkir.

Þessi pistill er frá Janúar 2008.

imagesCA7TS5SE

Hrekkir.

 

Það getur verið gaman af góðum hrekk eða góðu gríni, hver kann ekki einhverja góða sögu af því að grínast í kunningja sínum eða af góðum hrekk. Til er hrekkjalóma félag í Eyjum sem er búið að vera þar við ágætis orðstír í mörg ár, en maður þarf nú að vara sig hversu langt maður gengur svo maður særi engan.

Ég ætla að segja ykkur sögu af frumlegum hrekk sem vinir mínir gerðu á nágranna sínum þegar við vorum um það bil 13-15 ára. Eftir einn skóladag ákváðu þeir að fara heim til eins af strákonum en í sömu götu bjó bekkjarsystir okkar, hún var ekki komin heim úr skólanum en pabbi hennar var heima.

Þeir sáu sér leik á borði til að gera grín í þessum ágæta nágranna sínum. Þeir hringdu í alla í götunni sem að þeir sáu að voru heima kynntu sig sem pabbi bekkjar systur okkar og sögðu “sæll þetta er xxx pabbi hennar xxx hér í xxxgötu 32, hún xxx er lasin heima og ég er fastur í vinnunni, ég var að velta því fyrir mér hvort að þú gætir komið við heima og lánað henni dóttur minni rassamæli, þú værir að gera mér mikinn greiða

Allt í lagi maður getur nú gert nágrönnum sínum greiða t.d. lánað þeim sykur, tómatsósu og annað slíkt en að lána dóttur nágrannans rassamæli.....Rassamælir er ekki efst á listanum yfir hluti sem þú lánar hverjum sem er eða hvað!!!!

Þeir fylgdust með grenjandi úr hlátri þegar fyrsti nágranninn gekk vandræðalegur í átt að húsinu með lítinn poka í hendinni, hann barði varlega á dyrnar og væntanlega hefur hann vonað að málið væri leist og hún þyrfti ekki mælinn og þakkaði tillitsemina. En nei fljótlega var svarað og hurðin opnuð, þar rétti maðurinn húseiganda pokann en hann tók ekki við honum og eitthvað fór þeim á milli sem ekki var hægt að greina en það endaði þannig að hann gekk skömmustulegur í burtu og hurðinni var lokað. Mínir menn hlógu svo mikið að það lá við að þeir misstu meðvitund. Maðurinn var ekki fyrr komin til síns heima þegar næsti var kominn út og gekk í áttina að húsinu og vitið menn, sama sagan, sá gengur vandræðalega í burtu og mætir öðrum nágranna sínum á miðri leið og heilsast létt áður en þeir halda hvor sína leið,annar á leið með rassamælinn í útlán og hinn eflaust pirraður yfir því að hafa látið gabba sig svona.

Svona gekk þetta næstu tvo tímanna og að mig minnir að einir 5 eða 6 hafi komið færandi hendi handa aumingja stúlkunni sem lá veik heima og ekki er nú slæmt að eiga svo góða granna.

En þá fór einn að strákonum að hafa áhyggjur ef hann skildi ekki fara líka þá yrði hann serklega grunaður um hrekkinn enda var hann einn af fáum jafnöldrum xxx í götunni. Honum var ekki til setunnar boðið, hann gekk af stað vopnaður rassamæli til að vekja af sér allan grun og nú voru góð ráð dýr. þegar hann bankaði þá var svarað reiðilega“hvað villt þú, ertu kannski að koma með mæli handa xxx!” Já svaraði hann hér þarf enginn neinn rassamæli sagði hann og skellti hurðinni.

Þessi hrekkur komst svo upp stuttu seinna þegar menn fóru að segja sögur af honum.

En í minningunni er hann alltaf jafn fyndinn.

 

Högni Snær.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband