29.8.2012 | 22:08
Nei eða já það er spurningin.
Þessi pistill er númer 39 í röðinni og birtist í Mosfellingi í Apríl 2011.
Nei eða já það er spurningin.
Já nú á dögunum lauk Þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave ekki sú fyrsta en kannski sú síðasta vonandi, hver veit. Ég veit að allir eru komnir með miklu meira en nóg af þessu fjandans máli og sitt sýnist hverjum um það enda er sennilegra skemmtilegra að fá tannpínu heldur en að hlusta, horfa, eða lesa um þetta Icesave enn einu sinni. Og þess vegna ætla ég að skrifa nokkur orð um þennan djöful sem vitjaði mín í draumum og við köllum gjarnan Icesave samninginn.
Ég ætla ekki að halda því fram að þeir sem kusu já í kosningunum um daginn hafi haft rétt fyrir sér né þeir sem kusu nei. Það voru góð rök fyrir báðum kostum að mörgu leiti. Ég var á tímabili harðákveðinn í að segja já bara svo að hægt yrði að jarða þennan andskota í eitt skiptið fyrir öll.
Fyrir mér blasti þetta nokkurn veginn við svona.
Ég fer á bensínstöð og dæli á bílinn fyrir fimm þúsund kall, fer svo inn að borga. Maðurinn segir að þetta kosti tíuþúsund ég neita ég að borga, því ég dældi bara fyrir fimm, kallinn segir að þetta sé bara misskilningur og ég eigi þá bara að borga sjöþúsund og málið dautt. Á ég þá bara að borga sjöþúsund vegna þess að það er betra en að borga tíuþúsund. Því er ekki að neita að sjö er betri en tíu (betri samningur ???) ? Nei ég dældi bara fyrir fimmþúsund.
Ef Íslendingar hefðu samið svona í þorskastríðinu þá mættum við ekkert veiða við landið bara Bretar.
Þessi samningur var betri en fyrri en hann er að mínum dómi ósanngjarn, við eigum ekki að borga þetta. Hvort þið séuð sammála eða ekki skal ég ekki segja en málið er frá í bili. Ég kaus allavega nei...og hana nú.
Högni Snær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.