13.8.2012 | 08:49
Nýr óvættur á Íslandi.
Þessi pistill er frá Febrúar 2011 og er númer 37 í röðinni.
Nýr óvættur á Íslandi.
Nú á dögunum var það gert ljóst að nýr óvættur var kominn við strendur Íslands og ógnar heilsu okkar allra, þessi óvættur er að sögn stórhættulegur og ég hef eftir mjög óábyrgum heimildum að hann hafi þurrkað út heilu þorpin á landsbyggðinni og sé allur í sókn.
Þessi vættur er nú reyndar ná skyldur öðrum ófétum sem plagað hefur landann í áratugi marga. Þessi ógn heitir Transfita, já og kemur hún á eftir öðrum hryðjuverkum á borð við sykur, kolvetni og MSG. Nú verða bókabrennur viða þessi jólin þar sem uppskrifta bækur munu verða í aðalhlutverki sem inni halda þessar pestir.
Ég man þá tíma sem við vissum alltaf hvað var holt og hvað var óholt. Þeir sem höfðu vit til að greina þar á milli völdu það holla en ekki það óholla og hef ég nú oftast freistast í síðari kostinn einhverra hluta vegna. Sykur og sætindi voru óholl og laumuðust menn bara í sultutau og konfektmola á laugardögum. En svo var komið í tísku heilsusamlegt líf og minka við sig í kjöti og borða meira pasta og slíkan mat. Svo fréttist draugasagan um kolvetnið, og pasta og aðrar heilsu vörur í þeim flokki voru settar á hillurnar með sykri og sætindum. Svo kom skýrslan (ekki bankaskýrslan) út þar sem óvinur samfélagsins númer eitt sé MSG, og á einni nóttu voru skápar tæmdir sem innihéldu slíkt eitur enda stórhættuleg efni sem við vorum búin að eta í u.þ.b 50 ár. Önnur hver fjölskylda segist vera með ofnæmi gegn MSG, eini munurinn þá og nú er að nú stendur það á pakkningunni en ekki hér áður.
Ég fæ stundum spurningar í vinnunni hvort það sé pottþétt enginn transfita í þessu því viðkomandi sé með ofnæmi gegn transfitu.
Ég held að maður eigi ekkert að spá í þetta heldur að allt sé gott í hófi ekki satt?
Gleðileg jól og allt það Högni Snær
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.