Mótmælandi.

Þessi kom í Mars 2006.

Mótmælandi.

 images

Nú er sumarið búið og farfuglarnir að fara og með þeim mótmælendurnir á Kárahnjúkum.Ég var eitt sinn sagður vera svona mótmælandi en það var bara misskilningur þó svo að málefnið hafi verið gott. Það var eitt sumar í unglingavinnunni að það var grín í gangi hjá okkur félögunum,og það fólst í því að Múna.

Þegar við unnum baki brotnu við að fegra bæinn okkar og hringtorg þá áttum við til að múna á túristana sem komu hjólandi fram hjá, og viðbrögðin þeirra stóðu ekki á sér. Það varð einum svo mikið um að  hann endaði nánast út í Varmá. Mjög fyndið ekki satt??

Það fannst okkur að minnsta kosti, enda ungir að árum. Einn daginn þegar við vorum að strita á hringtorginu við þjóðveginn við Álafoss þá sáum við rútu koma og henni fylgdi tvö lögreglumótorhjól. Við sáum þarna leik á borði og losuðum um beltið.

Fyrst keyrðu hjólin fram hjá og svo kom rútan, og við létum vaða... rassinn og gersemarnar blöstu við þessum undrandi útlendingum er þeir keyrðu í gegnum hringtorgið. En það sem við tókum ekki eftir var að á hæla rútunnar var lögreglubíll og þeir fengu sömu kveðjur og rútan. Þeir keyrðu upp Ullarnesbrekkuna en snéru svo við, við vissum að nú yrði einhver leiðindi.

Lögreglan yfirheyrði okkur og tók niður upplýsingar en þeir spurðu okkur “Vitið þið hver þetta var sem var í rútunni” Ekki hugmynd..  Þetta var sendiherra Kína í sinni fyrstu óopinberri heimsókn til Íslands.

Önnur löggan var mjög alvarleg enda þetta eflaust tilefni til innrásar í Ísland, en hin gat varla staðið í lappirnar fyrir hlátri. Við vorum sendir skömmustulegir á teppið hjá Oddgeir sem sá um vinnuskólann og við þurftum að gera grein fyrir okkar máli. Við þurftum að skrifa undir afsökunarbeiðni sem send var í sendiráð Kína og reknir frá vinnu í viku. Fátækur námsmaður einsog ég mátti nú ekki við því að missa viku laun enda var nú landinn og bíóferðin ekki ókeypis.

scan0001

Þannig að ég hringdi í DV og sendi inn fréttaskot.

Enda eru peningar fyrir fréttaskot miklir peningar fyrir strák sem er með 120kr. á tímann við að raka og hreinsa beð. Það var haft samband við mig og tekið við mig viðtal sem ég gerði mest úr sakleysi mínu í þessu máli og sagði ég að ég hefði nú varla náð að Múna almennilega og því væri ég saklaus.

Stuttu seinna var sýnd mynd í sjónvarpinu sem hét að mig minnir “Við dauðans dyr”og fjallaði hún um mannréttindabrot Kínverja og um  stúlkuútburð sem þar tíðkast og stjórnvöld láta afskiptalaus. Í kjölfarið var umræðan um þetta mál mikil í fjölmiðlum og ég heyrði á Bylgjunni viðtal við mann sem sagði stoltur að við Íslendingar hefðum verið fyrstir til að mótmæla mannréttinda brotum í Kína og tók þetta Mún sér til rökstuðnings. Það var að sjálfsögðu ekki ætlunin enda var ekki búið að sýna þessa mynd en þetta átti bara að vera grín.

Ég var nú að spá í því að endurtaka leikinn þegar forsetsráðherrann kom hér um árið en ég lét Falum gong liða sjá um þetta.

Högni

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband