1.12.2011 | 21:49
Slúðrað í Mosó (2005)
Þessi er úr bæjarblaðinu Lókal ef ég man rétt og er frá árinu 2005.
Að búa og alast upp í Mosfellsbæ/sveit eru mikil forréttindi sem krakkar kunna ekki að meta fyrr en seinna á lífsleiðinni, okkur finnst á unglings aldri alltof langt að fara til Babylon (Reykjavíkur) til að fara í bíó eða keilu og hvað það nú er sem krakkar gera í dag. Ég fékk að finna fyrir gríninu þegar ég sótti menntaskóla hvað Mosó er langt í burtu frá öllu, og hef ég heyrt það flest, t.d. er Mosó á sömu breiddargráðu og Reykjavík?, hvaða gjaldmiðill er notaður í Mosó? , gengur strætó í Mosó?, keyrir maður ekki í gegnum það á leiðinni norður?. Mjög fyndið ekki satt?
Maður þurfti að vera snöggur að svara og ekki dugði að sárna og fara í fílu. Verst þótti mér nú þegar ég vissi að fólk utan af landi var að gera grín af Mosó og oftast dugði nú bara eitt svar hvaðan ert þú? Dalvík. Eru ekki allir systkinabörn á Dalvík? Þá þaggaði maður rækilega niður í þeim.....
Það er frábært að búa í Mosó af mörgu leiti en Mosó hefur líka að vísu sína galla sem hægt er þó að leiða hjá sér. Það sem mér finnst neikvæðast við Mosó er SLÚÐRIÐ.
Já Mosó er slúður capital Íslands. Það er alveg merkilegt hvað maður heyrir margt misjafnt um samsveitunga sína sem er kannski/oftast ekki satt. Ef ég fengi 1 krónu fyrir hvert skipti sem ég heyrði slúður um mig eða aðra sem ég þekki þá væri ég svo ríkur að ég væri með Bill Gates í vinnu hjá mér við að þurrka af. Ég byrjaði snemma að taka eftir þessari eftirlætis tómstundaryðju Mosfellinga að slúðra og fékk ég strax á unglings aldri smjörþefinn af því. Þegar ég var unglingur var ég t.d. að hugsa mér á fimmtudegi að fara í partý og reyna redda mér kippu og fara út að skemmta mér en þá var mamma kominn í málið og vissi allt um hvað var í vændum, jú sko hún var að vinna á Reykjalundi, á E-deild og þar voru þær í heimsklassa þessar elskur og gátu verið stoltar af.
Það má vera að þetta sé svona allstaðar á kaffistofum landsins eða þar sem að fólk kemur allmennt saman. Þetta er nú ekki alltaf fyndið því margir hafa farið illa út úr slæmu slúðri og Reykjalundarsögur voru nú ekki verstar því alræmdastar eru hárgreiðslustofur bæjarins þar sem framhjáhöld og fyllerí eru rædd í klippistólum og lagningum og það er einsog fólk hafi unun af því að heyra um ófarir annarra hvort sem það er satt eða ekki. Hversu oft hafa samræður byrjað á Veistu hvað ég var að heyra um hann...en það er ekki það versta því sögurnar breytast frá manni til manns enda erum við Mosfellingar snillingar í því að ýkja, t.d.einn bjór verður að kippu og þúsund kall verður að tíuþúsundkalli o.s.f.
Maður tekur svona sögum með fyrirvara svona einsog þegar maður les DV (trúir svona hálfpartinn ekki öllu). Ég held að við ættum að vera varkárri þegar við heyrum svona og í guðsbænum ekki fara með það gasprandi í næsta mann eða konu.Við ættum bara að halda þessu út af fyrir okkur því að á næstu hárgreiðslustofu gæti verið að gaspra um okkur.........
Högni Snær
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.